Starfsreglur stjórnarfólks
1. grein.
Markmið starfsreglnanna
Í reglum þessum er skráð og skilgreind sú háttsemi sem stjórnarmenn í stjórn Bergs, félags stjórnenda vilja sýna af sér við öll sín störf. Með stjórnarmönnum er átt við aðalmenn jafnt sem varamenn. Sömu starfsreglur gilda fyrir aðra er koma að starfssemi félagsins.
2. grein.
Starfsskyldur
Stjórnarmenn gegna störfum sínum af alúð og samviskusemi, gæta almannahagsmuna og hagsmuna félagsins. Í störfum sínum eru stjórnarmenn bundnir af lögum, reglum og samþykktum félagsins sem og sannfæringu sinni.
Stjórnarmenn hafa ávallt í heiðri grundvallarreglur góðrar stjórnsýslu í störfum sínum, þ.m.t. gagnsæja og upplýsta ákvarðanatöku, og framkvæma ekkert það sem er til þess fallið að vekja grunsemdir um að annað en lögmæt og málefnaleg sjónarmið ráði för við stjórn félagsins.
Stjórnarmenn móta stefnu og hafa eftirlit með rekstri félagsins. Stjórnarmenn gæta þess að framkvæmd stjórnsýslu og rekstur félagsins sé ávallt eins og best verður á kosið. Stjórnarmenn aðhafast ekkert það sem falið getur í sér misnotkun á fjármunum félagsins eða almannafé. Stjórnarmenn forðast að hafast nokkuð að sem er þeim til vanvirðu eða álitshnekkis eða sem varpað getur rýrð á störf þeirra eða félagsins.
Stjórnarmenn eru ávallt reiðubúnir að axla ábyrgð á störfum sínum.
3. grein.
Valdmörk og málefnaleg umfjöllun
Stjórnarmenn gæta þess að fara ekki út fyrir umboð sitt í störfum sínum og sýna störfum og réttindum annarra stjórnarmanna og starfsmanna félagsins virðingu.
Stjórnarmenn skulu fara vel með vald sitt og gæta þess að umfjöllun sé ávallt málefnaleg. Þeir skulu einnig gæta þess að persónulegar skoðanir á einstaklingum, stofnunum eða viðfangsefnum hafi ekki áhrif á umfjöllun og niðurstöður á ákvarðanatöku eða framkvæmd. Sömuleiðis skulu þeir taka tillit til sjónarmiða allra málsaðila án þess þó að láta skoðanir annarra rýra nauðsynlegt sjálfstæði sitt eða hafa áhrif á eigin afstöðu og ályktanir.
4. grein.
Hagsmunaárekstrar
Stjórnarmenn forðast hagsmunaárekstra í störfum sínum og ber að tilkynna formanni stjórnar um
hugsanlegt vanhæfi sitt. Um mat á hæfi við afgreiðslu einstakra mála og málsmeðferð í því sambandi fer eftir hæfisreglum almennra stjórnsýslulaga.
Stjórnarmenn nýta sér ekki stöðu sína í þágu einkahagsmuna sinna eða annarra sem eru þeim tengdir, hvort sem ávinningur af slíku kemur fram strax eða síðar, þ.m.t. eftir að störfum fyrir félagið lýkur.
5. grein.
Gjafir, fríðindi og laun
Stjórnarmenn þiggja ekki gjafir, fríðindi eða önnur hlunnindi frá viðskiptamönnum eða þeim er leita eftir þjónustu félagsins nema að um sé að ræða óverulegar gjafir. Stjórnarmenn þiggja ekki gjafir eða hlunnindi ef líta má á það sem endurgreiðslu fyrir greiða eða sérstaka þjónustu.
Stjórnarlaun stjórnarmanna fylgir taxta aðalstjórnar STF og fylgir almennri launaþróun.
Fyrir hvern fund reiknast 1,5 klst. Greiðsla fyrir árið 2018 nemur 6.445 kr. fyrir hvern fund.
6. grein.
Trúnaður
Stjórnarmenn gæta þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt á að fara vegna einkahagsmuna eða almannahagsmuna samkvæmt lögum eða eðli máls. Trúnaðurinn helst áfram eftir að stjórnarmenn láta af störfum fyrir félagið.
Stjórnarmenn virða trúnað um ummæli einstakra fundarmanna á fundum á vegum félagsins, sem og um innihald skjala eða annarra gagna, sem þeir fá aðgang að vegna starfa sinna og trúnaður skal vera um, nema að annað sé ákveðið.
7. grein.
Stöðuveitingar
Stjórnarmenn gæta þess að við stöðuveitingar hjá félaginu sé í hvívetna fylgt lögum og reglum og að einungis málefnalegar forsendur liggi að baki vali á starfsmönnum.
8. grein.
Miðlun starfsreglna til stjórnarmanna og almennings
Stjórnarmenn undirgangast þessar starfsreglur með undirskrift sinni og skulu þær vera aðgengilegar á heimasíðu félagsins.
